Bíó 2019 – Konungur ljónanna

Öllum þátttakendum er boðið í bíó á Selfossi eins og fyrri ár. Vorum að heyra í snillingunum í Bíóhúsinu og þeir ætla að bjóða okkur upp á stærstu mynd ársins. Myndin sem varð fyrir valinu þetta árið er Konungur ljónanna (Lion King).

Tímasetningar á Bíó ferðum:
D-lið kl: 9.00
C-lið kl: 11.05
B-lið kl: 13.10
A-lið kl: 15.15

Mikilvægt að liðin mæti á uppgefnum tíma í bíó.

Vinsamlegast athugið að veitingar í í bíóinu eru ekki innifaldar í mótsgjaldinu en Bíóhúsið býður upp á eftirfarandi tilboð. Liðin verða sjálf að útvega sínum mönnum hressingu í bíó.

Fótboltatilboð í bíó!

Tilboð 1 – Lítið popp og gos – kr. 700,-

Tilboð 2 – Lítið popp, lítið gos & hraun – kr. 800,-

Það væri mjög  gott að fólk myndi panta fótboltatilboðin á netfangið biohusid@biohusid.is eða fara á staðinn og ganga frá því tímanlega áður en bíóið byrjar til að forðast raðir og troðning.

Olísmótið 2019

Nú styttist í að Olísmótið á Selfossi eða Meistaradeild Olís á Selfossi hefjist en mótið fer fram dagana 9.-11. ágúst næstkomandi.

Þetta skemmtilega mót fyrir stráka í 5. flokki er haldið í afar góðu samstarfi við Olíuverzlun Íslands undir merkjum Olís sem tryggir flotta og góða umgjörð um mótið.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur á Olísmótinu á Selfossi í ágúst. Nýjustu upplýsingar munu birtast hér á heimasíðunni sem og á fésbókarsíðu mótsins Meistaradeild Olís – Selfossi. Leikjaplan verður vonandi klárt strax eftir verslunarmannahelgi en spilað verður í fjórum styrkleikum.

Vakin er athygli á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi og Brúarhlaupi Selfoss sem fara fram á Selfossi sömu helgi og Olísmótið.

Er þitt lið búið að skrá sig á Olísmótið 2019?

Meistaradeild Olís er fyrir knattspyrnustjörnur 5. flokks karla. Allir bestu fótboltamennirnir vilja spila í Meistaradeildinni. Hvað um þig?

Knattspyrnudeild Selfoss heldur knattspyrnumótið Meistaradeild Olís í fimmtánda sinn 2019. Mótið verður haldið helgina 9.-11. ágúst á Selfossi og er ætlað fyrir stráka í 5. flokki. Lið sem mæta með fjögur lið eða fleiri fá frítt hótelherbergi fyrir þjálfara sinn á meðan mótið stendur.

Fyrirkomumulag mótsins verður með þeim hætti að á föstudag verður spilað hraðmót (þrír leikir á lið) til þess að getuskipta liðunum. Laugardag og sunnudag verður spiluð riðlakeppni (fimm leikir á lið).

Spilaður er átta manna bolti eins og á Íslandsmóti á frábærum völlum. Meðal þeirra er JÁVERK-völlurinn sem er einn besti völlur landsins.

Skráning:
Þátttökutilkynningu skal senda á netfangið knattspyrna@umfs.is.

Mikilvægt er að eftirfarandi upplýsingar komi fram:
– Nafn félags og fjöldi liða
– Fjöldi þátttakenda í hverju liði
– Tengiliður félags vegna mótsins (farsími og netfang)

Staðfestingargjald:
Hvert lið þarf að greiða kr. 15.000 í staðfestingargjald (fyrir hvert lið, þar að segja a-lið, b-lið o.s.frv.) inn á reikning 586-26-994, kt 690390-2569. Til að tryggja sér þátttöku er best að skrá liðið sitt og borga staðfestingagjaldið sem fyrst. Gjaldið mun að sjálfsögðu ganga upp í þátttökugjaldið.

Þátttökugjald:
Þátttökugjald er kr. 14.000 fyrir hvern þátttakanda. Frítt er fyrir einn þjálfara/liðstjóra frá hverju liði, það er að segja einn hjá a-liði, einn hjá b-liði o.s.frv.

Innifalið í þátttökugjaldi er:
– Morgunverður laugardag og sunnudag
– Hádegismatur laugardag
– Pylsupartí sunnudag
– Kvöldverður föstudag og laugardag
– Kvöldhressing föstudag og laugardag
– Gisting í skólastofu
– Sundlaugarpartý með skemmtiatriði
– Kvöldvaka – Leyniatriði
– Frítt í sund fyrir keppendur á meðan á mótinu stendur
– Bíóferð
– Átta stórskemmtilegir fótboltaleikir

Mótið er núna haldið í fimmtánda sinn og er alltaf að verða flottara.

Keppendur, þjálfarar og foreldrar hafa verið mjög ánægðir með mótið.

Nánari upplýsingar veita Ingi Rafn í síma 869-1910 og Sveinbjörn í síma 897-7697.

Olísmótinu 2018 lokið

Olísmótinu 2018 er lokið á Selfossi. Verðlaunaafhending fer fram á JÁVERK-vellinum þar sem efstu þrjú liðin í hverjum riðli fá verðlaunapeninga.

Eftirtalin lið urðu sigurvegarar í sínum riðli.
A-lið Riðill 1: Valur
A-lið Riðill 2: Keflavík
B-lið Riðill 1: KA
B-lið Riðill 2: Sindri/Neisti
C-lið Riðill 1: Grindavík
C-lið Riðill 2: Grótta
D-lið Riðill 1: KA
D-lið Riðill 2: KFR
Íþróttabandalag Uppsveita fékk háttvísiverðlaun KSÍ heiðarlega framkomu keppenda á mótinu.

Knattspyrnudeild Selfoss vill koma á framfæri þakklæti sínu til keppenda, þjálfara, liðstjóra og foreldra allra liða á mótinu. Strákarnir voru til fyrirmyndar jafnt innan vallar sem utan og verðugir fulltrúar sinna félaga. Takk fyrir þátttökuna.Einnig viljum við koma á framfæri þakklæti til vallarstarfsmanna, dómara, sjálfboðaliða og foreldra á mótinu. Ykkar framlag er ómetanlegt og er ein helsta ástæða þess að við getum haldið mótið með þeim glæsibrag og myndarleika sem raunin er. Takk fyrir aðstoðina.

Allt hjálpast þetta að og eftir situr eftirminnileg helgi á Selfossi þar sem fléttast saman keppni, vinátta og góðar minningar. Einstök úrslit, skot, mörk, sigrar og töp líða hjá en eftir situr minningin um frábært mót.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur á Olísmótinu að ári. Sjáumst á Selfossi 9.-11. ágúst 2019.

Takk fyrir okkur og sjáumst að ári!

Keppni að hefjast á lokadegi Olísmótsins

Keppni á lokadegi Olísmótsins er að hefjast í þessu líka milda veðri hér á Selfossi.

Við viljum vekja athygli á að eftir að úrslit gærdagsins birtust á vefnum hafa orðið breytingar í riðli eitt hjá B-liðum og riðli eitt hjá C-liðum. Í báðum tilfellum víxluðust úrslit en þau hafa nú verið leiðrétt. Biðjumst við velvirðingar á þessum mistökum.

Það er ýmislegt á dagskrá hjá okkur í dag og upp úr klukkan 12:00 byrjum við að grilla pylsur og bjóða upp á drykki fyrir alla keppendur á mótinu.

Verðlaunaafhending hefst stundvíslega klukkan 13:15 á aðalvellinum og verða keppendur ásamt þjálfara/fararstjóra niðri á vellinum en foreldrar og aðrir stuðningsmenn strákanna verða í stúkunni. Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í öllum riðlum í öllum flokkum. Einnig verður veitt viðurkenning KSÍ fyrir heiðarlega framkomu á mótinu.

Minnum félög á að sækja gjafir fyrir strákana í mótsstjórn. Vinsamlegast athugið að gjafir eru afhentar hverju félagi í einu lagi.

Góða skemmtun á JÁVERK-vellinum í dag og megi fegurð knattspyrnunnar njóta sín jafnt hjá leikmönnum sem stuðningsmönnum.

Keppni lokið á laugardegi – Kvöldvaka með BMX BRÓS

Keppni er lokið í dag og eru öll úrslit komin á vefinn undir hlekknum LEIKIR/ÚRSLIT 2018.

Minnum á að kvöldvakan með BMX BRÓS hefst klukkan 20:00 í portinu fyrir utan íþróttahús Vallaskóla (gengið út um inngang við mötuneyti Vallaskóla) og fararstjórafundur er í Tíbrá (félagsheimilið þar sem sjoppan er) klukkan 18:30.

Takk fyrir daginn og sjáumst á JÁVERK-vellinum klukkan 9:00 í fyrramálið.