Olísmót 2020 blásið af

Stjórn knattspyrnudeildar Selfoss hefur ákveðið í ljósi stöðunnar á heimsfaraldrinum af völdum Covid-19 að Olísmót 2020 sem átti að vera 7.-9. ágúst síðastliðinn, en var frestað vegna Covid-19  verði ekki haldið. Uppi voru hugmyndir að halda Olísmótið í september en þar sem nokkur tilfelli af Covid-19 hafa  komið upp hér á Selfossi síðustu daga m.a. í 5. aldursflokki telur deildin best fyrir alla að Olísmót verði haldið aftur 2021 á sínum hefðbundna tíma 6.-8. ágúst.

Olísmótinu frestað

Helgina 7.-9. ágúst var fyrirhugað að halda OLÍS mótið á Selfossi í 16. skipti. Mótið er stærsta verkefni knattspyrnudeildar Selfoss ár hvert og hefur undanfarnar vikur verið í mörg horn að líta við skipulag og undirbúning mótsins, ekki síst í ár þar sem skipulag mótsins var sniðið að þeim fjöldatakmörkunum og sóttvarnaraðgerðum sem í gildi hafa verið. Skráning á mótið hefur aldrei verið meiri og stefndi í metþátttöku.

Í ljósi upplýsinga sem yfirvöld sendu frá sér í dag, þar sem hertari aðgerðir vegna kórónuveirunnar voru kynntar, þeirra á meðal að fjöldatakmörk verða lækkuð úr 500 manns niður í 100 manns og að tveggja metra reglan tekur aftur gildi og er því ekki lengur valkvæð, hefur knattspyrnudeild Selfoss og OLÍS tekið ákvörðun um að fresta mótinu um óákveðinn tíma. Reglurnar gilda næstu tvær vikurnar hið minnsta en mótsstjórn mun fylgjast vel með framgangi mála næstu vikurnar með það að markmiði að finna mótinu nýja dagsetningu, sem vonandi verður síðar í ágúst/september í ár ef aðstæður leyfa.

Þrátt fyrir að knattspyrnudeild Selfoss sjái sér fært um að halda mótið með breyttu sniði innan gildandi viðmiða telur deildin það vera samfélagsleg skylda sín að sýna ábyrgð og fresta mótinu þar til aðstæður í samfélaginu leyfa. Við tökum heilshugar undir orð Víðis um að „Nú gildir að standa saman og tækla þetta af ábyrgð“ og hvetjum okkur öll sem eitt til að tækla komandi daga og vikur af ábyrgð, samstöðu og skynsemi.

Við munum upplýsa um framgang mála á miðlum Umf. Selfoss.

Stjórn knattspyrnudeildar Selfoss.

Meistaradeild Olís 2020

Nú styttist í Meistaradeild Olís á Selfossi 2020 !
Mótið fer fram 7. – 9. ágúst og er allt að verða tilbúið á svæðinu 🙂
Einsog staðan er í dag höldum við öllum okkar áætlunum en bíðum frekari fyrirmæla frá yfirvöldum.
Dagskrá, mótafyrirkomulag ásamt leikjaniðurröðun verður kynnt hér fljótlega.
Hlökkum til að sjá ykkur á Selfossi

Olísmótið 2020 fer fram á Selfossi 7.-9. ágúst

Nú styttist í að Olísmótið á Selfossi eða Meistaradeild Olís á Selfossi hefjist en mótið fer fram dagana 7.-9. ágúst næstkomandi.

Þetta skemmtilega mót fyrir stráka í 5. flokki er haldið í afar góðu samstarfi við Olíuverzlun Íslands undir merkjum Olís sem tryggir flotta og góða umgjörð um mótið.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur á Olís-mótinu á Selfossi í ágúst. Nýjustu upplýsingar munu birtast hér á heimasíðunni sem og á fésbókarsíðu mótsins Olís-mótið.

Leikjaplan verður vonandi klárt strax eftir verslunarmannahelgi en spilað verður í að minnsta kosti fjórum styrkleikum.

Vakin er athygli á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi og Brúarhlaupi Selfoss sem fara fram á Selfossi sömu helgi og Olísmótið.

Olísmót 2020

Nú styttist í áætlaðan tíma á Olís mótinu á Selfossi 2020.

Okkur langar að upplýsa ykkur um stöðuna á mótinu okkar eins og staðan er í dag

Á þessum skrítnu tímum höfum við lagt í vinnu með verkfræðing í að skipuleggja knattspyrnumót sumarsins og vallarsvæðið á Selfossi þannig að mótin geti farið fram með öryggi leikmanna, þjálfara og áhorfenda í fyrirrúmi.

Við leggjum mikið upp úr því að halda gæðum á mótinu og upplifun allra sem koma á mótið þó svo að við gætum þurft að breyta fyrirkomulaginu örlítið. Svæðinu okkar verður skipt upp í þrjú stök svæði, hvert með sitt bílastæði, snyrtiaðstöðu, veitingaaðstöðu og aðstöðu fyrir áhorfendur ef þess þarf. Leikmenn spila alla sína leiki innan síns svæðis og viðurkenningar verða veittar að leikjum loknum og því engar óþarfa hópamyndanir á svæðinu. Aðstaða fyrir handþvott og salernis aðstaða verður á öllum svæðum.

Okkur langar að halda okkur við upprunalegar dagssetningu en vitum að það gæti mögulega breyst. Ef við þurfum að færa mótið til munum við senda upplýsingar á öll lið með nýrri dagssetningu eins fljótt og auðið er.

Við stefnum á að senda ykkur öllum annan póst eftir fyrstu vikuna í maí með frekari upplýsingum.

Hlökkum til að sjá ykkur á Selfossi í sumar

Olísmótinu 2019 er lokið á Selfossi

Olísmótinu 2019 er lokið á Selfossi. Verðlaunaafhending fer fram á JÁVERK-vellinum þar sem efstu þrjú liðin í hverjum riðli fá verðlaunapeninga.

Eftirtalin lið urðu sigurvegarar í sínum riðli.
A-lið Riðill 1: Keflavík
A-lið Riðill 2: Þór
B-lið Riðill 1: Þór
B-lið Riðill 2: ÍBV
C-lið Riðill 1: Álftanes
C-lið Riðill 2: Hamar/Ægir
D-lið Riðill 1: Valur
D-lið Riðill 2: Keflavík 1

Þróttur  fékk háttvísiverðlaun KSÍ heiðarlega framkomu keppenda á mótinu.

Knattspyrnudeild Selfoss vill koma á framfæri þakklæti sínu til keppenda, þjálfara, liðstjóra og foreldra allra liða á mótinu. Strákarnir voru til fyrirmyndar jafnt innan vallar sem utan og verðugir fulltrúar sinna félaga. Takk fyrir þátttökuna. Einnig viljum við koma á framfæri þakklæti til vallarstarfsmanna, dómara, sjálfboðaliða og foreldra á mótinu. Ykkar framlag er ómetanlegt og er ein helsta ástæða þess að við getum haldið mótið með þeim glæsibrag og myndarleika sem raunin er. Takk fyrir aðstoðina.

Allt hjálpast þetta að og eftir situr eftirminnileg helgi á Selfossi þar sem fléttast saman keppni, vinátta og góðar minningar. Einstök úrslit, skot, mörk, sigrar og töp líða hjá en eftir situr minningin um frábært mót.

Við hlökkum til að taka á móti ykkur á Olísmótinu að ári. Sjáumst á Selfossi 7.-9. ágúst 2020.

Takk fyrir okkur og sjáumst að ári!

Keppni á lokadegi Olísmótsins er hafin

Góðan dag
Keppni á lokadegi Olísmótsins er hafin.

Við viljum vekja athygli á að öll úrslit koma á heimasíðu Olismót.is þar má sjá uppfærð úrslit og leiki dagsins í dag og úrslita í riðlum

Leikir/Úrslit 2019

Það er ýmislegt á dagskrá hjá okkur í dag og upp úr klukkan 12:00 byrjum við að grilla pylsur og bjóða upp á drykki fyrir alla keppendur á mótinu.

Verðlaunaafhending hefst stundvíslega klukkan 13:15 á aðalvellinum og verða keppendur ásamt þjálfara/fararstjóra niðri á vellinum en foreldrar og aðrir stuðningsmenn strákanna verða í stúkunni. Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í öllum riðlum í öllum flokkum. Einnig verður veitt viðurkenning KSÍ fyrir heiðarlega framkomu á mótinu.

Minnum félög á að sækja gjafir fyrir strákana í mótsstjórn. Vinsamlegast athugið að gjafir eru afhentar hverju félagi í einu lagi.

Góða skemmtun á JÁVERK-vellinum í dag og megi fegurð knattspyrnunnar njóta sín jafnt hjá leikmönnum sem stuðningsmönnum.

Úrslit laugardagsins tilbúin

Keppni er lokið í dag og eru öll úrslit komin á vefinn undir hlekknum LEIKIR/ÚRSLIT 2019.
Hlökkum til að sjá ykkur hress og kát í fyrramálið í góða veðrinu.